Almennt

Flestar hálsbólgur orsakast af veirum og því er ekki ástæða til að meðhöndla hálsbólgu með sýklalyfjum nema ef streptókokkar (grúppa A) eru orsakavaldurinn. Streptókokkar orsaka einnig skarlatssótt, sem er algengari hjá börnum og unglingum undir 18 ára og fylgir oft hálsbólgunni.

Allt að 20% (6–40%) fólks geta verið einkennalausir streptokókka (grúppu A) berar og þurfa ekki sýklalyfjameðferð.

Einkenni

Rannsóknir hafa sýnt að mjög erfitt er að greina streptókokkahálsbólgu við læknisskoðun og þess vegna er mælt með ræktun úr hálsi eða hraðgreiningarprófi til greiningar. Ákveðin lykileinkenni eru hjálpleg við að meta þörfina á slíkri greiningu.

Börn með hálsbólgu af völdum streptókokka eru oft með önnur einkenni en lykilatriðin hér að neðan, t.d. lystarleysi, kviðverki, uppköst og getur roði verið dreifður í koki.Í slíkum tilfellum greinir hraðgreiningarpróf eða ræktun úr hálsi flest þau sem eru með streptókókka (grúppu A).

Börn með skarlatssótt fá neðangreind útbrot og einnig mörg önnur einkenni streptókokkasýkingar.

Lykileinkenni

Einkenni sem sterklega benda til streptókokkahálsbólgu hjá einstaklingum 15 ára og eldri hafa verið nefnd Centor criteria og þau eru:

  • Hiti 38,5°C
  • Eitlabólgur á hálsi
  • Skánir á hálskirtlum
  • Ekki kvef eða hósti

Annað sem getur bent til streptókokka (grúppu A) hálsbólgu

  • Hraður sjúkdómsgangur
  • Mikil særindi við að kyngja
  • Smáblæðingar á gómbogum
  • Bólginn rauður úfur
  • Jarðarberjatunga
  • Fölvi kringum munn
  • Erfitt að opna munn
  • Rauðleitir dílar á bringu, andliti og maga (Skarlatssótt)

Ef 2–4 af hinum fjórum lykileinkennum eru til staðar hjá einstaklingum eldri en 15 ára eru líkur á að streptokókkar (grúppa A) sé orsök hálsbólgunnar. Greininguna skyldi hins vegar alltaf staðfesta með hraðgreiningarprófi eða ræktun úr hálsi.

Ef 0–1 lykilatriði er til staðar er ólíklegt að um hálsbólgu af völdum streptokókkar (grúppa A) sé að ræða og því ekki ástæða til að gera hraðgreiningarpróf eða fá ræktun úr hálsi.

Sótt af http://www.hsve.is/page/streptokokkar-halsbolga þann 9. október 2015.