Lög Vinagarðs leikskóla KFUM og KFUK

 1. Nafn
  1. Leikskólinn heitir Vinagarður leikskóli KFUM og KFUK.
  2. Leikskólinn er eign KFUM og KFUK á Íslandi og getur ekki gengið úr félaginu með eigur sínar.
 2. Leikskólinn byggir starf sitt á kristilegum grunni og starfar samkvæmt lögum og reglugerðum um leikskóla frá 1994 og aðalnámsskrá frá 1999. Lögð er áhersla á að efla kristilegt siðgæði og að barnið öðlist grundvallartraust sem er viðfangsefni í trúarlegri uppeldismótun.
 3. Stjórn
  1. Í stjórn leikskóla KFUM og KFUK skulu sitja fimm einstaklingar. Stjórn KFUM og KFUK á Íslandi og Foreldrafélag leikskóla KFUM og KFUK skipa einn fulltrúa hvor. Aðrir stjórnarmenn skulu vera félagar í KFUM og KFUK á Íslandi.
  2. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Innan hennar skulu vera formaður, ritari og gjaldkeri.
  3. Stjórnin heldur fundi að jafnaði einu sinni í mánuði. Leikskólastjóri skal sitja fundi stjórnar. Framkvæmdastjóri KFUM og KFUK á Íslandi hefur einnig rétt til setu á stjórnarfundum og skal fá sendar fundargerðir stjórnarinnar.
 4. Aðalfundur
  1. Aðalfund ber að halda í marsmánuði ár hvert og skal stjórnin boða hann með auglýsingu að minnsta kosti með mánaðar fyrirvara.
  2. Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:
   • Starfsskýrsla leikskólans.
   • Starfsskýrsla stjórnar.
   • Lagðir fram til samþykktar endurskoðaðir reikningar s.l. árs.
   • Starfs- og fjárhagsáætlun yfirstandandi árs.
   • Kosning í stjórn sbr. 3. gr. a) og 4. gr. b).
   • Kosning skoðunarmanna reikninga sbr. 4. gr. d).
   • Önnur mál.
  3. Stjórn leikskólans skipar tveggja manna kjörnefnd a.m.k. mánuði fyrir aðalfund og skal hún vera utan stjórnar. Nefndin setur upp kjörlista með nöfnum allt að 8 einstaklinga fyrir stjórnarkjör á aðalfundi.
  4. Af kjörlistanum skal kjósa fólk í stjórn leiksskólans til tveggja ára og tvo varamenn til eins árs. Haga skal kosningu þannig að á hverju ári gangi a.m.k einn úr stjórn. Enn fremur skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga til eins árs og einn til vara.
  5. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa fullgildir félagar í KFUM og KFUK á Íslandi sem greitt hafa árgjald liðins starfsárs.
 5. Stjórn og leikskólastjóri
  1. Stjórn og leikskólastjóri bera ábyrgð á daglegum rekstri leikskólans innan ramma samþykktar starfs- og fjárhagsáætlunar. Stjórnin skal fylgjast með innra starfi leikskólans og veita því stuðning. Stjórnin ber ábyrgð á starfi leikskólans gagnvart Reykjavíkurborg og fylgist með að rekstur sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir um leikskóla.
  2. Stjórn leikskólans annast ráðningu leikskólastjóra í samráði við framkvæmdastjóra KFUM og KFUK á Íslandi.
  3. Ritari skal vinna og halda utan um fundargerðir stjórnarfunda og aðalfunda. Hann tekur saman skýrslu stjórnar fyrir hvern aðalfund. Gjaldkeri hefur eftirlit með fjármálum leikskólans og skal ásamt leikskólastjóra vinna fjárhagsáætlun fyrir 15. nóvember ár hvert.
 6. Lögum þessum má einungis breyta á aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga skulu sendar stjórninni eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund og skulu þær liggja frammi a.m.k. tveimur vikum fyrir aðalfund.
  Tillögur til lagabreytinga teljast samþykktar ef 2/3 hlutar greiddra atkvæða eru þeim fylgjandi. Lagabreytingar öðlast aðeins gildi að stjórn KFUM og KFUK á Íslandi samþykki þær.

Breytingar samþykktar á aðalfundi 26. apríl 2006