1. gr.

Félagið heitir Foreldrafélag Vinagarðs leikskóla KFUM og KFUK.

2. gr.

Heimili félagsins og varnarþing er að Holtavegi 28, 104 Reykjavík.

3. gr.

Tilgangur félagsins er að sameina foreldra barna á Vinagarði leikskóla KFUM og KFUK og standa vörð um velferð barna á leikskólanum.

4. gr.

Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að standa fyrir viðburðum fyrir börn á leikskólanum og fjölskyldur þeirra, fylgjast með starfi leikskólans og vinna náið með leikskólastjóra.

5. gr.

Félagsaðild. Allir foreldrar barna á leikskólanum geta verið félagar í félaginu. Félagsmenn greiða árgjald eins og það er ákveðið á aðalfundi. Þeir félagsmenn sem ekki geta, aðstæðna sinna vegna, greitt árgjald halda þó félagsréttindum sínum.

6. gr.

Starfstímabil félagsins er 1. október – 30. september ár hvert. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins foreldrar/forráðamenn barna á leikskólanum og starfsmenn leikskólans mega vera þátttakendur í aðalfundi.

7. gr.

Aðalfund skal halda eigi síðar en 15. október ár hvert og skal boða til hans með minnst tveggja vikna fyrirvara með tryggilegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar
  5. Ákvörðun félagsgjalds
  6. Kosning stjórnar
  7. Önnur mál 

8. gr.

Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum: formanni, ritara, gjaldkera og tveimur meðstjórnendum ásamt að minnsta kosti tveimur varamönnum. Stjórn og varamenn eru kjörin á aðalfundi til eins árs í senn. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til funda. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

9. gr.

Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi. Félagsgjöld skulu innheimt árlega.

10. gr.

Rekstrarafgangi/hagnaði af starfsemi félagsins skal varið til að uppfylla tilgang félagsins skv. 3. grein.

11. gr.

Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með 2/3 hluta atkvæða og renna eignir þess til Vinagarðs leikskóla KFUM og KFUK.

 

Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi þann 14. mars 2016.