Vinagarður var lokaður í dag á meðan starfsfólk skipulagði næstu vikur ásamt því að þrífa og undirbúa undir opnun á morgun, þriðjudag. Leikskólinn verður opinn frá og með morgundeginum en lagt er upp með að aðeins helmingur barna verði í leikskólanum í einu. Allir foreldrar hafa fengið upplýsingar um hvaða daga börnin þeirra mega mæta í leikskólann. Hér fyrir neðan eru upplýsingar sem sendar voru í dag og eru foreldrar beðnir að lesa þær gaumgæfilega.

Verklag leikskóla á grunni takmarkana skólastarfs vegna farsóttar

Í þeim samfélagslegu aðstæðum sem nú eru leggur Samband íslenskra sveitarfélaga höfuðáherslu á að fylgja í einu og öllu fyrirmælum opinberra aðila sem stýra aðgerðum til  varnar útbreiðslu COVID-19 veirunnar. Föstudaginn 13. mars 2020 settu sóttvarnarlæknir, fulltrúi almannavarna, forsætisráðherra, menntamálaráðherra og heilbrigðisráðherra fram tilmæli um skipulag skólahalds næsta mánuðinn vegna stöðunnar.

Sveitarfélögin í landinu sameinast um að samræma aðgerðir í skipulagi skóla- og frístundastarfs fyrir þetta tímabil eins og kostur er. Skólahald mun fara fram en með takmörkunum. Skólarnir sinna börnum og unglingum sem eru viðkvæmustu hópar samfélagsins og því þarf að huga vel að virkni þeirra og vellíðan.  Þá ber að hlúa að starfsfólki sem starfar innan skóla- og frístundastarfs en þessi hópur sinnir mikilvægum störfum í í samfélaginu.

Samband íslenskra sveitarfélaga fylgist vel með þeim breytingum sem kunna að verða á takmörkunum á skólahaldi. Við tökum höndum saman svo að allt starf geti farið fram af yfirvegun og æðruleysi. Sveitarfélögin færa þakkir til alls þess fjölda fagfólks á vettvangi sem tekur að sér skipulagningu skólastarfsins næstu vikur við fordæmalausar aðstæður.

Hér fyrir neðan má sjá verklag til viðmiðunar í leikskólum Reykjavíkurborgar sem byggir á auglýsingu stjórnvalda frá 13. mars s.l. sem finna má hér.

Markmið aulýsingarinnar um takmörkun skólastarfs er að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19. Auglýsingin tekur gildi 16. mars 2020 kl. 00:01 og gildir til 12.apríl 2020 kl. 23:59 en verður endurmetin ef efni standa til.

Í auglýsingunni segir um leikskóla:

Leikskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitafélaga, að halda uppi leikskólastarfi að þeim skilyrðum uppfylltum að börn séu í sem minnstum hópum og aðskilin eins og kostur er. Jafnframt skulu gerðar ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa byggingar eftir hvern dag.

Viðmið um umfang leikskólastarfs í Reykjavík verður sem hér segir

  • Leikskólinn verður opinn frá 7:45 – 16:00.
  • Tekið verður á móti sem nemur helmingi barna á hverri deild daglega.
  • Meginlína er að hvert barn komi í leikskólann annan hvern dag, tvo daga aðra vikuna og þrjá daga hina og systkini fylgist að.
  • Börn starfsmanna leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs hafa forgang að leikskóladvöl en þó þarf að horfa til aðstæðna í hverju tilfelli. Æskilegt er að fólk sæki um forgang að þjónustunni. Gera má ráð fyrri að allir foreldrar þurfi að taka á sig einhverja skerðingu.
  • Viðbúið er að tilteknar starfsstéttir foreldra fái forgang um þjónustu umfram aðra hópa samkvæmt lista frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og það kann að fækka enn frekar þeim dögum sem önnur börn geta sótt leikskólann.
  • Starfsfólk leitast við að vinna með börnin í litlum hópum u.þ.b. 4-6 börn í hópi.
  • Leikskólanum verður lokað kl. 16:00 og tíminn eftir það nýttur til að ganga frá eftir daginn og undirbúa næsta dag en meðal aðgerða leikskólans er að fækka leikföngum og skipta um leikefni á hverjum degi.
  • Í hvíld og matartíma verði þess gætt að gott bil sé á milli barna.
  • Börn leggja ekki á borð, skammta sér ekki sjálf á diskana og taka sér ekki sjálf t.d. ávaxtabita úr skál.
  • Starfsfólk vinnur fyrst og fremst með börn af einni deild og leitast verður við að ekkert flæði barna og starfsfólks verði á milli deilda.
  • Fyrirhugaðri aðlögun barna þessar vikur verður frestað.
  • Komi til mikillar mannfæðar þannig að ekki verði hægt að vinna með börnin í u.þ.b. 4-6 barna hópum verður unnið eftir fáliðunarferli leikskóla til viðbótar við ofangreint.

Tilmæli til foreldra

  • Aðgengi foreldra og annarra utanaðkomandi inn í leikskólann verður mjög takmarkað.
  • Foreldrar hafa einungis aðkomu í fataherbergi leikskólans og staldrar þar við eins stutt og mögulegt er. Miðað er við að einungis fáir foreldrar séu í fataherbergi í einu og aðeins einn aðili frá hverju barni.
  • Foreldrar eru beðnir um að snerta ekki hluti í fataherbergi að óþörfu og helst ekki annað en fatahólf síns barns og eigur þess.
  • Finni foreldri fyrir flensueinkennum er það beðið um að koma ekki inn í leikskólann.
  • Hafi börn flensueinkenni s.s. kvef eru foreldrar beðnir um að halda þeim heima. Þetta á einnig við um aðrar umgangspestir eins og t.d. magapestir og aðrar kvefpestir.
  • Starfsfólk tekur á móti börnum í fataherbergi en hefur fengið þau tilmæli að halda fjarlægð á milli sín og foreldris eins og auðið er. Starfsfólk fylgir börnum inn á deildir og börn byrja á því að þvo hendur eftir komu í leikskólann.
  • Foreldrar eru beðnir um að gæta þess að ekki sé of mikið í hólfum barnanna og tæma hólf þeirra daglega.
  • Foreldra gæti fyllsta hreinlætis hvað varðar fatnað barna, bæði inn- og útifatnað enda liggja fatahólf þétt saman. Þetta á einnig við um aðrar eigur barnanna.
  • Börnin komi ekki með leikföng, bangsa, snuð eða aðra sambærilega hluti með sér að heiman í leikskólann.
  • Foreldrar sem kjósa að halda börnum sínum alveg heima eru beðnir um að láta leikskólastjóra vita.