Í leikskólanum starfar matsteymi þar sem sitja fulltrúar allra deilda ásamt leikskólastjóra. Matsteymi gerir matsáætlun til 4 ára í senn sem á árunum 2021-2024 byggði á viðmiðum og vísbendingum fyrir innra og ytra mat á gæðum leikskólastarfs sem gefin voru út af skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar 2015. Frá hausti 2024 í samhengi við endurskoðaða skólanámskrá byggir matið og umbótaþættirnir á köflum námskrárinnar til þess að fylgja betur eftir innleiðingu hennar.

Matsteymi gerir einnig matsáætlun fyrir hvert starfsár að hausti og skipuleggur gagnaöflun auk þess sem eitt þematískt matsverkefni er valið. Matsteymi fundar 4-5 sinnum yfir starfsárið og sér til þess að gagnaöflun sé virk allt skólaárið.

Dæmi um matsaðferðir eru skráningar á deildum, svo sem um þróun leiks í barnahópnum, námsumhverfi, birtingarmyndir námssviða og samskipti í barnahónum, viðtöl, gátlistar sem starfsfólk deilda fyllir út og ræðir um á deildarfundum, spurningakannanir til starfsfólks og foreldra, rýnihópar barna og starfsfólks, rýning á skriflegum gögnum skólans auk endurmats stjórnendateymis.

Að vori gerir matsteymi greiningu á niðurstöðum mats og skilar til stjórnendateymis sem ber ábyrgð á gerð umbótaáætlunar. Þannig skila niðurstöður sér beint í umbótáætlun skólans og tryggir að þær byggi á traustum grunni og að unnið sé með þá þætti sem þarfnast umbóta í skólastarfinu. Fulltrúa foreldra er boðið á haustfund matsteymis þar sem lagðar eru línur fyrir mat vetrarins og á greiningarfund að vori. Þátttaka barna er helst í gegnum rýnihópa en þau fá einnig kynningu á niðurstöðum sem þau hafa komið að. Stjórn leikskólans fær kynningu á niðurstöðum mats á fundum stjórnar að vori. Foreldrum er send greining á niðurstöðum mats og umbóta sem er hluti af starfsáætlun skólans sem kemur út í júní ár hvert.

Skoðið endilega greinargerðir um innra mat og umbótaáætlanir í starfsáætlunum fyrri ára:

Starfsáætlun Vinagarðs 2025-2026

Starfsáætlun Vinagarðs 2024-2025

Starfsáætlun Vinagarðs 2023-2024